Tíbrá er vefverslun þar sem þú getur keypt uppskriftir af handprjónuðum flíkum og nokkrum hekluðum.
Eigandinn er Bergrós Kjartansdóttir frá Ísafirði, ættuð úr Jökulfjörðum og Hornströndum.
 
Árið 1988 útskrifaðist hún úr MÍ, fór svo í Háskólann í Bókmenntafræði og Þjóðfræði B.A. Síðan í Hagnýta fjölmiðlun á masterstigi. Hún var lengi vel verslunarstjóri hjá Tinnu sem gaf jafnframt út eitt þekktasta prjónablað á Íslandi á sínum tíma. Síðan lá leiðin í Iðnskólann í Hafnarfirði í listnám og þaðan í Iðnskólann í Rvk, nú Tækniskólinn, í annað listnám, Gull og silfursmíði. Bergrós er búin með skólann og samninginn tók hún hjá Dýrfinnu Torfadóttur gullsmiði á Akranesi. Síðustu ár með skóla hefur hún unnið hjá Íslenskum Textíliðnaði (ÍSTEX) sem aðalhönnuður við blaðið þeirra sem heitir LOPI.
 
 
 
Hönnun Bergrósar er oft sögulegs eða tilfinningalegs eðlis. Hún leitar einnig mikið í uppruna sinn, bernskuna, í bókmenntir, ljóð, þjóðsögur og ævintýri, í tónlist og myndlist, umhverfi, fólkið sitt og upplifanir. .
 
Í prjónahönnun sinni hefur hún í huga getu prjónarans sem prjónar flíkina en reynir jafnframt að þenja tæknilegu mörkin út eins og hægt er til að prjónarinn upplifi eitthvað nýtt, listrænt og spennandi við prjónana.
Hún fer ótroðnar slóðir í munsturgerð og vill skapa spennandi stemmingu, eitthvað seiðandi og órætt sem hver einstaklingur getur líka gert að sínu.
Stemming er orð sem hún er upptekinn af og hún sendir ekkert frá sér fyrr en hún er ánægð með þá stemmingu sem svífur yfir flíkinni. Þar liggur drifkrafturinn.
 
 
Bergrós leggur oft mikla vinnu í munstrin sín og notar þau því á fleiri en einn veg.
Sama grunnmunstrið er t.d. í tveimur til þremur flíkum, en með annarri útfærslu eða litasamsetningu. Þannig getur prjónarinn sjálfur blandað saman hluta af hönnun í einni flík við aðra og fengið út alveg nýja flík sem engum öðrum hefur dottið í hug að setja saman.